Jan & feb 25
Daman - 9. March 2025
Janúar 2025
Líklega eina merkilega í janúar var bóndadagurinn. Við fórum niður í bæ á veitingastað við ána. Ég fékk mér mjög fínan kjúklingaborgara en Daníel ákvað að fá sér steik sem hann gat borðað svona kannski helminginn af haha. Það var frekar misheppnað en við fórum á Force Majeure eftir á í góða drykki þannig það bætti aðeins upp fyrir matinn. Síðan þurftum við að drífa okkur heim þar sem að Ísland var að spila í handboltanum.
Það er kannski bara það sem lýsir janúar best: handbolti. Það sem lýsir janúar líka: þoka. Janúar var bara grár og þokukenndur en í raun ekkert fáránlega kaldur.
Daníel var svo líka í prófum í seinni hluta janúar en hann tók 4 próf á viku (fös-mán-mið-fös). Þrátt fyrir þétta dagskrá stóð hann sig virkilega vel eins og vanalega og fékk staðið í einu prófi og A í 3?! Eitthvað annað vel gert. Hann er þá hér með búinn með öll próf í náminu og á “bara” ritgerðina sína eftir.
Hann fékk líka mjög skemmtilegt tækifæri frá kennara sem kenndi honum fyrir jól. Hann var ss. beðinn um að halda smá kynningu/fyrirlestur fyrir þau sem eru í áfanganum núna. Hann var að fjalla um ferlið í áfanganum, gaf þeim ráð og sagði frá hlutum sem hann hefði viljað vita í upphafi áfangans. Ég veit að kynningin var mjög flott þar sem hann fór með hana fyrir mig hérna heima. Aftur á móti voru nokkrir hlutir að vinna á móti honum uppi í skóla þegar hann mætti að kynna þannig hann var ekki alveg eins sáttur og hann hefði getað orðið. Helsta vandamálið var að í upphafi tímans voru þau í þægilegri svona 80 ish manna stofu sem var þéttsetin, auðvelt að hafa yfirsýn yfir alla og það þurfti ekki míkrafón. Aftur á móti þegar kom að Daníel að kynna í lok tímans, þurftu þau að skipta um stofu sökum tvíbókunar. Þá þurfti Daníel allt í einu að standa frammi fyrir töluvert stærri stofu, sem rúmar ca 300 manns, og allir sátu dreift. Ofan á það þurfti hann að vera með míkrafón sem hefði verið í lagi ef hann hefði fengið að halda á honum en þetta var svona sem er utan um eyrað og liggur upp við kinnina. Vegna þessa míkrafóns var mjög erfitt fyrir hann að fá sér vatnssopa sem olli þá svona “cotton mouth” og gerði það erfiðara að tala. EN mér skilst að hann hafi haldið athygli allra allan tímann sem ég verð að segja að er fáránlega gott miðað við eigin reynslu af háskólanámi og fá gesta kynningar. Kennarinn var líka sjúklega ánægður með þetta og sagði að þetta hafi verið bara fullkomið, hann gaf honum líka 2 rauðvínsflöskur! Þannig þrátt fyrir að Daníel hafi kannski ekki verið alveg ánægður með allt saman er ég nokkuð viss um að þetta hafi verið mjög flott og þetta er næs hlutur til að geta sett á ferilskrána.
Annars var þetta bara mjög venjulegur mánuður.
Febrúar 2025
Febrúar var aðeins viðburðar meiri en janúar. Hann var líka kaldari en mér finnst það hafa verið svona eini vetrar vetrarmánuðurinn. Það byrjaði líka að birta fyrr til á morgnana þannig það hjálpaði.
Fyrsta heimsókn ársins var svo 6.-9.febrúar en þá hittum við tengdamömmu og Binna í Kaupmannahöfn. Við gistum á Kong Arthur hótelinu sem er virkilega næs og best er hvað það er vel staðsett þannig það var auðvelt að ganga á svona alla helstu staðina. Á fimmtudeginum áttu þau að lenda um 15 minnir mig en þar sem að tengdamamma er cursed þegar kemur að ferðalögum var fluginu seinkað sökum óveðurs. Þetta var daginn þar sem að var rauð viðvörun á Íslandi, þannig kannski ekki svo skrítið. En við Dmg vorum því mætt til Köben á undan og nýttum tímann til að hitta á Elísabetu. Þau lentu svo um kvöldið og við gátum tekið drykk með þeim á hótelbarnum fyrir svefninn.
Föstudagsmorguninn fórum við á kaffihús nálægt hótelinu og ómægad hvað mér fannst allt gott þar. Rúnstykki og svo jógúrt með múslí og mér fannst þetta bara fáránlega gott. Það var m.a. mynta í jógúrtinu og það kom mér svo á óvart hvað það var gott. Svo fórum við bara að rölta um og skoða og ég og tengdamamma fórum að sjálfsögðu í Uniqlo hjá Elísabetu. Síðan römbuðum við að smørrebrød stað sem að Binni hafði heyrt að væri góður. Við áttum ekki pantað borð eða neitt og hann virkaði svona frekar fancy en við fengum samt borð. Þetta var eitthvað annað gott! Ég er enn að hugsa um matinn þarna. Þannig við mælum með Aamanns 1921 ef fólk er að leita eftir fancy næs smørrebrødstað í Köben. Um kvöldið ætluðum við á Indverskan stað en hann var í raun Pakistanskur en mér fannst maturinn a.m.k. mjög góður. Lentum reyndar í því að fá annað rauðvín en við hefðum viljað og það var ekkert mjög gott, en við Dmg tókum að okkur að chugga hluta þess, þar sem að fátækir námsmenn vita að maður sóar ekki áfengi. Enduðum svo kvöldið á vínstofu/bar nálægt hótelinu.
Á laugardeginum fórum við á Thorvaldsens safnið en það var mjög pretty. Síðan er víst skylda fyrir alla Íslendinga að fara á Hviids vinstue, þannig að sjálfsögðu fórum við þangað. Kíktum líka á Amalienborg og á Frederiks kirkjuna. Um kvöldið var smá óvissa hjá okkur hvað við ætluðum að borða en við enduðum á ekta ítölskum stað. Svo ekta að það var ekki hægt að fá pizzur. En við fengum öll mjög fínan mat og það var næs stemning inni á staðnum.
Á sunnudeginum fengum við okkur aftur morgunmat á sama stað og á föstudeginum, síðan röltum við aðeins um áður en við Dmg tókum lestina aftur til Aarhus. Mjög vel heppnuð ferð.
16.feb fór ég út að borða með Skor fólkinu á Grappa til þess að kveðja Hörpu og Árna sem reka skor, þar sem þau eru núna flutt til Köben.
22.feb tókum við deitnight, bæði af því bara og af því að konudagurinn var svo á sunnudeginum. Við byrjuðum kvöldið á Force Majeure í fordrykkjum sem er alltaf næs. Síðan fórum við út að borða á Pincho nation sem er alltaf gaman þrátt fyrir að maturinn er ekki heimsins bestur þá er hann fun. Þar á eftir fórum við í bíó á Bob Dylan myndina en hún var virkilega góð. Kvöldið endaði svo á Gedulgt í lokadrykk. Mjög skemmtilegt kvöld sem mér tókst að láta enda ekkert alltof skemmtilega þar sem ég borðaði of mikið popp… Þeir sem þekkja mig vita hvað gerist þegar ég borða of mikið af einhverju og líkaminn minn er ekki í fullkomnu jafnvægi. Jújú ég enda kvöldið á því að þurfa chilla aðeins inni á baði, sem betur fer heima, á meðan líkaminn losar sig við poppið og kemur öllu í jafnvægi aftur.
23.feb var konudagurinn og Daníel hitti í mark eins og vanalega. Blóm, nammi og bók, hin fullkomna þrenna. Það skemmtilega var að bókin var surprise en það er concept sem heitir “Blind date with a book” og maður getur bara lesið lýsingu á bók eftir starfsmann bókabúðarinnar og svo sér maður hver bókin er bara þegar maður opnar pappírinn.
Aaa shit svo var eitt svo pirrandi! Þegar ég var að ganga í skólann á mánudeginum og nánast komin, var búin að ganga 3,4 km af 3,6, klukkan var 08:14 og skólinn byrjar 08:30 þá fékk ég póst um að tíminn félli niður. Þá var ekkert annað í stöðunni en að snúa við á staðnum og halda aftur heim á leið. En það endaði þá bara í fínasta göngutúr snemma morguns.
Tengdamamma fékk ekki nóg af okkur í byrjun febrúar heldur kom aftur í heimsókn 25.feb-1.mars. Í þetta sinn kom hún til Árósa en ástæðan var að hún var að fara á ráðstefnu. Hún gisti á hótelinu sem er nánast við hliðina á okkur, a.m.k. það nálægt að við sáum eiginlega inn til okkar frá herberginu hennar. Við áttum mjög næs kvöld þrið, mið og fim heima bara þar sem við annað hvort elduðum eða pöntuðum mat. Á föstudagskvöldinu var ég að vinna þannig að við fórum snemma út að borða á elsku indverska staðnum sem er alltaf jafn góður. Þau komu síðan á Skor til mín að spila en þar sem það var svo lítið að gera gat ég spilað aðeins með þeim. Tengdamamma fór svo fyrir miðnætti upp á hótel aftur til að ná að hvílast fyrir ferðalagið heim daginn eftir. Daníel var eftir á Skor hjá mér en það er spurning hvort hann hafi séð eftir því. Nefnilega akkúrat þegar ég átti að vera búin kom í ljós að það hafði einhver ælt í vaskinn inni á einu salerninu. Við Daníel tókum á okkur að þrífa það en Daníel okkar besti maður var í þriðja sinn í lífinu að þrífa upp ælu “fyrir mig”. Fyrstu 2 skiptin voru í afmæli sem ég hélt en ég vil taka fram að það var aldrei mín æla! Hann fær alveg rosalega mörg rokkstig fyrir þetta. Í laugardags hádeginu kvöddum við svo tengdamömmu og þökkuðum henni fyrir ótrúlega næs heimsókn.
Þar með er febrúar lokið og mars er hafinn. Officially er fyrsti vor mánuðurinn hafinn en dönsku kennarinn minn sagði um daginn að fyrsti vordagur væri í raun þegar það eru 15 gráður úti svo við bíðum spennt eftir því.
Daníel er annars alltaf jafn duglegur að vera vinna og er mjög samviskusamur að mæta alla virka daga upp í skóla að vinna í ritgerðinni sinni ásamt 1 fundi í viku með leiðbeinendunum sínum.
Ég óska eftir einhverjum sem er flinkur í danskri málfræði til þess að útskýra þessa helvítis kommur og hvar og hvenær maður á að nota þær. Ég er svo líka búin að vera í semi pásu frá blakinu, bæði búin að vera busy en svo er líka úlnliðurinn minn búinn að vera eitthvað steiktur. Svo er ég að fara að missa af allavega næstu 2 vikum líka. En í staðinn erum við Írena bara duglegar að fara út að hlaupa saman.
Í mars erum við að fara til Kolding að passa Bangsa aftur (labrador hundinn) og svo erum við líka að fara til Íslands í stutta helgarheimsókn á vorhátíð Icelandair!
Takk og bless