Fyrsta vikan í Árósum

Daman - 10. August 2023

Jæjaaa þá er fyrstu vikunni hjá okkur hérna í Árósum að ljúka. Ferðalagið okkar hófst fimmtudaginn 3.ágúst en við flugum frá Keflavík 6:45 þann morgun. Sólarhringinn fyrir það flug átti ég aðeins til að fá smá kusk í augun þegar ég var að kveðja en þegar kom að því að setjast upp í vél var bara spenningur. Það var erfitt að kveðja (líka fyrir Daníel þrátt fyrir að hann hafi sleppt því að brynna músum) en þetta er það spennandi og skemmtileg tilhugsun að búa úti að maður lætur á þetta vaða þrátt fyrir mjög blendnar tilfinningar. Ég ætla bara að segja það strax að ég er þekkt fyrir að skrifa miklar langlokur og vita þau sem hafa unnið með mér verkefni að ég get skrifað endalaust um ekkert svo þið megið alveg spenna á ykkur beltin fyrir þennan lestur, eða bara hætta að lesa og skoða myndir – ykkar er valið.

Fimmtudagurinn 3.ágúst:

Á Keflavíkurflugvelli langaði okkur mjög til að finna rólegheitar stað eins og Icelandair Loungeið en þar sem við vorum að fljúga með Play þá var það ekki að fara virka. Við settumst því inn á nýja staðinn Jómfrúna þar sem var mjög lítið að gera og fengum okkur mjög næs avókadóbrauð (sjá mynd). Við getum alveg mælt með þeim stað til að vera ekki í kaósinu sem flugvellir eru, sérstaklega ef þið eruð með ofnæmi fyrir illa uppöldnum börnum eins og við. Flugið sjálft var nú ekki frásögufærandi nema að einhvernveginn skynjar fólk þetta fyrrnefnda ofnæmi hjá okkur og voru börn/krakkar fyrir framan, hliðina og fyrir aftan okkur. Við lifðum þó þetta af enda stutt flug og bæði með hljóðeinangrandi heyrnartól.

Við lentum í Billund á réttum tíma og töskurnar voru mjög fljótar að koma en hins vegar þurfti Daníel að bíða ansi lengi í röð eftir bílaleigubílnum. Þeir sem þekkja Daníel vita kannski að hann elskar ekkert mjög mikið að standa í röð eða þurfa að bíða EN ótrúlegt en satt þá held ég að danska „ligeglad“ áran hafi umvafið hann þegar hann lenti því hann var sallarólegur og hann skildi ekkert í þessum hestpirruðu Íslendingum í röðinni sem tuðuðu stanslaust í 45 mínútur. Þegar við vorum komin með bílaleigubílinn hófst akstur til Árósa en við vorum semi í kappi við tímann þar sem að ef við myndum ná fyrir klukkan 14:00 gætum við fengið íbúðina afhenta. Á leiðinni sáum við að við vorum ekki að fara ná þessu þannig við hringdum í Kim vin okkar, sem er umsjónarmaður á þessu Kollegi eða eitthvað álíka, og sammældumst um að hittast klukkan 10:00 daginn eftir til að fá íbúðina. Við ætluðum alltaf að gista fyrstu nóttina okkar á hótelinu sem við vorum búin að bóka þannig við héldum þangað að checka okkur inn. Síðan héldum við af stað í fyrstu IKEA ferðina af alltof mörgum (a.m.k. að Daníels mati). Við keyptum hins vegar ekki neitt nema kjötbollur og svo óhreinatau, annars vorum við að skoða sófa (sem ég var búin að skoða í IKEA á Íslandi svona 6x), rúm og fleira. Ásamt því að fara í IKEA fórum við í um það bil allar aðrar búðir – JYSK, Silvan, Sport 24, Bauhaus og Bilka. Mæður okkar öfunduðu okkur mikið af því að fara í Bilka og móðir mín var mjög móðugð að hafa ekki fengið snap af búðinni en við vorum eins og Zombiear í búðinni af þreytu þannig sorry mamma. Daníel komst hins vegar að því að áfengið er alveg töluvert ódýrara hér og ég get sagt ykkur það að hann grætur ekki yfir þeirri staðreynd.

Föstudagurinn 4.ágúst

Við fórum og hittum Kim sem sýndi okkur allt svæðið í kringum Katrinebjergvej – nýja heimilið okkar en ég mun gera nákvæma útlistun á íbúðinni og svæðinu í kring í öðrum pósti þar sem að það hafa líklega einhverjir áhuga á að lesa það en örugglega mjög margir ekki. Síðan var ferðinni heitið í Ikea þar sem við splæstum í rúm og tókst okkur að flytja það heim í bílaleigubílnum ótrúlegt en satt. Við náðum í raun að flytja allt sem við keyptum í þeim bíl, í bara mjög mörgum ferðum. Við fórum einnig í Elgiganten- danska Elko og keyptum Airfryer og kaffivél en það eru hlutir sem eru búnir að vera í mikilli notkun hjá okkur. Airfryerinn var nauðsyn þar sem það er ekki bakaraofn í íbúðinni... Daníel byrjaði að setja rúmbotninn saman en endaði það á að vera 107x meira vesen en við bjuggumst við svo við enduðum á að sofa á dýnunni á gólfinu inni í stofu.

Laugardagurinn 5.ágúst

Á þessum tímapunkti vorum við ekki búin að kaupa leirtau en hins vegar vorum við búin að kaupa pott og sleikju þannig ég eldaði mér hafragraut og borðaði hann af pottloki en það var mjög mikið svona neyðin kennir naktri konu að spinna moment hjá mér. Við fórum á rúnt um bæinn að leita að loppumörkuðum og við fundum mjög misgóðar búðir. Ein þeirra var með notaðar svona aðeins fínni vörur án þess að vera lúxus vörur og gat ég keypt ónotaða hlaupaskó á hálfvirði- mjög næs. Síðan enduðum við á markaði sem við vorum búin að vera bíða eftir að lenda á en þar var endalaust af leirtaui og húsgögnum og þeir sem þekkja Daníel vita að hann hefði getað verið í 18 daga þar inni. Við enduðum á að kaupa diska, glös, bolla, hnífa, stóla og lampa (en í íbúðinni eru engin loftljós í svefnherberginu og stofunni). Við fórum svo aftur í IKEAð okkar og keyptum lampa, skálar, sófaborð og borðstofuborð en enduðum samt á að borða kvöldmatinn okkar sitjandi á dýnunni á gólfinu og notuðum pappakassa sem borð. Daníel kláraði svo að setja upp rúmið og gátum við sofið í því.

Sunnudagurinn 6.ágúst

Við ákváðum að hafa þennan dag sem smá dag fyrir okkur til að njóta og nýta bílaleigubílinn. Við byrjuðum samt á að fara með pappann og plastið af vörunum sem við höfðum keypt í danska sorpu og hún var svo sniðug því maður keyrir í hring! Síðan keyrði Daníel með okkur í Ejstrupholm og sýndi mér hvar tengdamamma og Kjartan bróðir hans bjuggu einu sinni. Ekki gat Daníel sleppt því að kíkja í Lego house í Billund á þessum rúnti en það var ógeðslega mikið af fólki í búðinni þannig við beiluðum ansi fljótt. Þá ákváðum við upp á funnið að keyra til Þýskalands þrátt fyrir að við vissum að allt væri lokað. Það var gaman að prófa að fara þangað en það var mjög steikt að finna bara hvað við erum fegin að búa í Danmörku en ekki Þýskalandi. Getum eiginlega ekki útskýrt það en við vorum bæði bara já nei við myndum ekki vilja búa hér- þrátt fyrir að allt væri mjööög svipað. Við slepptum auðvitað ekki að fara í IKEA þennan dag og fórum og keyptum sófa – sem komst líka í bílinn.

Mán-mið 7.-9.ágúst

Við skiluðum bílnum á mánudeginum og nýttum við tímann þann morguninn til að fara í sorpu, Bilka og IKEA. Annars vorum við þessa daga að setja saman húsgögn, ganga í búðir, skoða niðri í bæ og hafa það næs. Það sem er helst frásögufærandi er að á miðvikudeginum skráðum við okkur inn í landið og ég fékk danska kennitölu (Daníel átti síðan hann bjó hér fyrir löngu). Við fögnuðum því með að fá okkur að borða þar sem við pöntuðum allt of mikinn mat og ég er enn með smá samviskubit yfir hversu mikið ég skildi eftir.

Þetta er annars búið að vera sjúklega næs og okkur líður mjög vel hérna. Veðrið er samt búið að vera alveg frekar leiðinlegt en vonandi er það að breytast.

Margar random myndir frá þessum dögum fylgja með hér að neðan.

image-fyrsta-vikan-i-arosum
image-0image-1image-2image-3image-4image-5image-6image-7image-8image-9image-10image-11image-12image-13image-14image-15image-16image-17image-18image-19image-20image-21image-22image-23image-24image-25image-26image-27image-28image-29image-30image-31image-32image-33image-34image-35image-36image-37image-38