1. Árið í Mastersnámi

Dólgurinn - 20. June 2024

Skólinn

Háskólar eiga það til að mála sig stærri og skærari en daglegt nám gefur til kynna og af mjög skiljanlegum ástæðum. Þeir eru í stöðugri keppni við aðrar stofnanir og á síðustu árum hefur framboð af fjarnámi, netskólum og samkeppnishæfum námskeiðum stóraukist sem setur enn meiri þrýsting á hefðbundnu skólana.

Ég var því örlítið skeptískur eftir að ég sótti kynningarhelgi hérna í Árósarháskóla síðasta vor þar sem fulltrúar skólans, sem töldu kennara, nemendur og sviðsstýru alls tölvu- og rafmagnsverkfræðisviðsins, reyndu hvað þau gátu að selja mögulegum nemendum námið hérna. Það var farið yfir gífurlegan metnað skólans, áherslu hans á rannsóknir og framfarir á tækni- og verkfræðisviði sem og hagnýtingu umræddra rannsókna og framfara.

Okkur var sýnt öll þau tæki og tól sem nemendur höfðu aðgang að en sú aðstaða var í sér byggingu sem ætti að sýna fram á umfang hennar. 2 heil herbergi full af þrívíddarprenturum sem nemendur gátu notað gjaldfrjálst eftir að hafa sótt námskeið um notkun þeirra. Heilt herbergi af öllum mögulegum raftækjum, allt frá PlayStation 1 upp í nýjustu iPhone símana og fjarstýringar, sem voru til taks ef prófa þyrfti hugbúnað á mismunandi viðmótum. Til viðbótar var okkur einnig sýnt og lofað aðgengi að fyrsta flokks smíðaaðstöðu, bæði fyrir hefðbundin smíðaverkefni sem og tæknismíði sem þyrfti lóðun eða annarskonar tæknibúnað.

Nemendum var lofað viðtali við sviðsstjóra eða stýru námsins á hverri önn til að ræða mögulega stefnu þess og hvað passaði fyrir hvern. Þetta viðtal átti að vera leið skólans til að hámarka persónulega upplifun hvers og eins nemenda, sem var eitt af þeirra loforðum. Einnig var staðhæft að það væri sterk tenging milli nemenda og kennara, og að nemendur væru hvattir til umræðu og skoðanaskipta við kennarana sína og það ætti aldrei að hika við að hafa samband ef eitthvað bjátaði á eða væri óljóst.

Að lokum kom klassíska sölulínan; “Við erum með sterk tengsl við atvinnulífið”. Þessi lína hljómaði ansi kunnuglega, komandi með BSc gráðuna frá HR. Ég vil taka það fram að ég ætla ekki að efast um tengsl Háskólans í Reykjavík við atvinnulífið í eina sekúndu, það voru mikið af skemmtilegum viðburðum og hakkaþonum sem tengdust raunverulegum vandamálum og fyrirtækjum en á sama tíma þá vissi ég líka að sú tenging náði aldrei inn í námið sjálft, hvað þá inn í áfangana, að lokaverkefninu frátöldu. Þessi lína væri oftar notuð sem staðhæfing um orðspor skólans innan fyrirtækja, ekki um efni og framgang misunandi verkefna innan áfanga námsins. Skólinn hérna lofaði raunverulegum og hagnýttum verkefnum í áföngnunum sem og tengingu og samstarfi við fyrirtæki í grennd við skólann. Ég hafði þó heyrt þá rullu áður svo ég keypti þetta loforð ekki samstundis. Síðasta loforð þeirra var þó ansi áhugavert en það var loforðið að nemendur hefðu aðgang að ráðgjöf og aðstöðu ef þeir vildu stofna sitt eigið fyrirtæki á meðan námi stæði. Skólinn hefði skrifstofuaðstöðu fyrir hópa eða fyrirtæki, ráðgjafa sem gætu aðstoðað og myndu koma til móts við nemendur sem ætluðu sér fyrirtækjarekstur námslega séð með því að meta ákveðna þætti ferilsins sem einingar og/eða áfanga.

Það var því alveg ljóst fyrir mér, á meðan ég keyrði frá Árósum aftur til Kaupmannahafnar til að fljúga heim, að þessi skóli hefði fullt upp á að bjóða en líkt og með margt þá gæti mikið af þessum staðhæfingum líka verið sölubrella frekar en skuldbinding. Núna þá tel ég mig þó hæfan að meta flest þessi loforð með nokkurri vissu en það er gaman að segja frá því að skólinn hefur staðið við flest af þeim. Nú vil ég taka fram að ég er ekki að skrifa þetta til að selja skólann eða námið og mér hefur ekki verið greitt fyrir þessi skrif né hef ég verið hvattur til eða beðinn um þau. Ef þau ætluðu sér það þá er ég nokkuð viss um að ég yrði ekki fyrir valinu. Þetta er hreinlega kalt mat á þeim loforðum sem fulltrúar skólans settu fram á kynningunni.

Það má alveg segja með vissu að skólinn leggur mikla áherslu á rannsóknir og tækniframfarir. Það er krafa skólans að kennarar séu í virkri rannsóknarvinnu og hvetji nemendur til þess sama ef áhugi liggur fyrir. Þetta er líka endurspeglað í uppbyggingu námsins en það er í boði að taka rannsóknarvinnu sem áfanga. Sama má segja um hagnýtingu rannsóknanna en það er mikil vinna lögð í að finna not fyrir þær rannsóknir sem starfsmenn skólans vinna að. Önnur birtingarmynd þessarar áherslu eru hinir ýmsu hópar og teymi skólans en þar má nefna bæði kappaksturslið skólans og gervihnattarteymið sem er hluti af hópi Danskra háskóla sem ætla að koma öðrum gervihnetti á sporbaug (þau hafa komið nokkrum, týndu meira að segja einum og eru enn að vinna í því að finna hann). Þessi teymi/hópar eru samansett af nemendum sem vinna í samstarfi með útvöldum kennurum og sérfræðingum að því að finna hagnýt not fyrir nýjustu rannsóknir á afmörkuðum sviðum.

Þau stóðu líka alveg við aðstöðu-loforðin en ég hef því miður ekki náð að nýta með þrívíddarherbergið þar sem ég hef ekki enn komist á námskeiðið. Ég veit þó að það er frítt og mikið af samnemendum mínum hafa nýtt sér það. Sömuleiðis virðist alltaf einhver vera að lóða eða saga eitthvað í vinnuherbergunum.

Viðtal við sviðstýruna var líka loforð sem þau stóðu við, en undirrituðum tókst að sofa yfir sig í fyrsta viðtalinu svo ég verð að bíða eftir því næsta sem ætti að vera á þessari önn. Kennararnir hér hafa líka allir verið nokkuð aðgengilegir og almennilegir. Ég er langt frá því að vera sammála öllu sem þeir segja og kenna en það hefur aldrei verið vesen að fá svör eða spyrjast fyrir um tiltekið efni. Líkt og á svo mörgum sviðum í lífinu þá finnst þeim mjög gaman að sjá áhuga á sínu sérsviði svo ég hef alltaf fengið mjög greinargóð svör þegar ég reyni að grafa dýpra eftir svörum eða spyrst fyrir um tiltekna útskýringu.

Það sem kom mér þó mest á óvart var að þeirra yfirlýsta tenging við atvinnulífið var langt frá því að vera ósönn. Í öllum áföngum á síðustu önn var verkefni sem tengdist raunverulegu vandamáli frá raunverulegu fyrirtæki og í mörgum tilvikum var líka fyrirlestur frá fulltrúa fyrirtækis sem kynnti fyrirtækið og starfssemi þess og fór svo í gegnum það með okkur hvernig efni áfangans tengdist daglegri starfssemi fyrirtækisins og hvernig það notaði aðferðirnar, sem og hvað vandamál þetta efni hefði leyst. Það er svo enn sterkari tenging á þessari önn, en í 2 mismunandi áföngum erum við að leysa verkefni fyrir raunveruleg fyrirtæki og eigum því að eiga öll okkur samskipti við fulltrúa þess í stað kennaranna. Báðir þessir áfangar enda svo á því að við kynnum lausnina okkar, ekki fyrir öðrum nemendum áfangans, heldur fyrir verkfræðingum og öðrum starfsmönnum fyrirtækisins sem við ‘unnum’ hjá þessa önnina og verður sú kynning haldin í höfuðstöðvum þess fyrirtækis. Þessi nálgun skólans kom mér virkilega á óvart en á sama tíma hefur mér fundist hún ótrúlega skemmtileg og frískandi þar sem maður finnur meiri tilgang í að leggja mikla vinnu í verkefni þegar þú veist að það eru mögulegir atvinnuveitendur að fylgjast með. Því finnst mér alveg óhætt að segja að þau hafi algjörlega staðið við þessa staðhæfingu.

Ég hef ekki kynnt mér fyrirtækjastoðdeildina í þaula en eftir minni bestu vitneskju þá er hún til staðar og mjög öflug. Henni er skipt niður í mismunandi deildir eftir áherslum og sérsviðum svo að hægt sé að hafa viðeigandi sérfræðinga til staðar. Nemendur eru einnig hvattir til að skoða aðstöðuna og koma nýjum hugmyndum á framfæri. Miðað við hvað skólinn er rannsóknarmiðaður þá einnig mjög rík áhersla á frumkvöðlastarfssemi og það er nánast alltaf hægt að finna allskonar plaköt á göngum skólans þar sem verið að auglýsa eftir auknum starfskrafti í ný fyrirtæki eða verkefni.

Ofan á allt þetta er svo reglulega farið í ferðir í fyrirtæki sem eru ýmist í samstarfi við skólann, eða stórir aðilar á Danska atvinnumarkaðinum. Þessar ferðir eru stundum einungis fyrir alþjóðanemendur, stundu, bara fyrir Danska nemendur og svo stundum fyrir alla.

Skólinn sjálfur hefur því alveg staðið undir væntingum og haldið þau loforð sem fulltrúar hans gáfu þegar ég heimsótti hann fyrst.


Námið

Önnin hérna í Árósarháskóla, og uppsetning námsins og námsmat, er talsvert öðruvísi en ég var vanur úr Íslenska kerfinu. Fyrsta sem maður tekur eftir er lengd hverrar annar. HR er með sitt 12+3 kerfi og þó að ég hafi ekki sótt HÍ þá veit ég að nemendur hjá bæði HÍ og HR kláruðu annirnar á svipuðum tíma; fyrir jól. Hérna er önnin “bara” 14 vikur en ég set það í gæsalappir því að fyrsta önnin mín hófst 1. September 2023. og ég kláraði fyrstu önnina mína þegar ég gekk útúr seinasta lokaprófinu þann 24. Janúar 2024. Það eru meira en 20 vikur. Önnin hérna úti er töluvert lengri því að námið er mikið afslappaðra. Viðhorfið hérna er að gera hlutina hægt og gera minna í einu. 3 vikna fyrirvari á verkefni sem var ekki á upphaflega skipulaginu er guðlast í augum nemenda hérna, allavega þeirra sem eru í kringum mig. Erfiðleikastig verkefna er líka þáttur sem er töluvert frábrugðin milli Íslands og Danmerkur. Fyrsta heimaverkefnið sem ég settist yfir og náði að klára var ég handviss um að ég hefði gert vitlaust eða gleymt blaðsíðu. Ekki af því að það var svo ótrúlega auðvelt eða einfalt, verkefnið var bara svo ótrúlega beinskeitt og fitulaust. Tilgangur þess að eingöngu að sjá hvort að þú hefðir fylgst með í tímum og hvort þú gætir beitt efninu á praktískan máta. Svo var engin raunveruleg einkunn gefin, bara ‘feedback’ og punktar frá 1 upp í 5 og þeir punktur voru ekki einu sinni metnir til lokaeinkunna.

Það snertir á næsta atriði sem er svo ótrúlega ólíkt; námsmat. Verkefnin sem sett eru fyrir sjaldnast metin til einkunna, tilgangur þeirra er að aðstoða þig við að skilja efnið og eins að halda þér við efnið og sjá til þess að þú sinnir námsefninu. Kennarar eru að sjálfsögðu með mismunandi leiðir til að útfæra þetta; í einum áfanganum voru skil aðra hverja viku og svo áttum við að meta skil annars hóps vikuna eftir það en skilin voru alltaf lítil og tengdust námsefni vikunnar beint. Aðrir kennarar settu bara fyrir 2 til 3 stærri verkefni yfir alla önnina í stað margra lítilla. Sama hver aðferðarfræðin var, þá áttu öll verkefnin það sameiginlegt að gilda aldrei til einkunna. Á Íslandi var maður orðinn sérfræðingur í að reikna vægi hvers verkefni og stöðuprófs til að sjá hvað ‘maður þyrfti að fá’ til að falla ekki (eða ná 10, svona erum við ólík). Hér hef ég ekki tekið eitt stöðupróf sem taldi til einkunna (það voru 2 ‘kannanir’ í einum áfanga en þær voru einungis til að hækka lokaeinkunina) og einu verkefnin sem ég hef þurft að skila sem að telja eitthvað eru lokaverkefni. Það er mjög algengt að áfangar séu með lokaverkefni sem þarf að skila til að mega þreyta lokaprófið en í sumum tilvikum þarf bara að skila verkefnunum og í öðrum þá eru þau notuð sem hluti af lokaprófinu sjálfu.

Stærsti munurinn á milli landanna sem ég hef orðið var við hingað til eru án efa lokaprófin. Ég man ekki eftir einu lofaprófi úr grunnnáminu sem var ekki staðarpróf, sem þýddi skriflegt próf(ýmist í tölvu eða blaði) sem stóð í 2-4 klukkutíma. Í sumum tilvikum voru engin gögn leyfð, oftast var búið að heimila eitt formúlublað eða álíka aðstoðartól en ég man aðeins eftir einu prófi þar sem öll gögn voru leyfð. Ég er búinn að taka 4 lokapróf hingað til og sé fram á að taka 5 í sumar. Af þeim var aðeins 1 skriflegt próf og í því voru öll gögn leyfileg. Öll hin prófin hér hafa verið munnleg próf og ég get hiklaust sagt að það sé orðin uppáhalds próftýpan mín. Rökin fyrir munnlegum prófum, sem og uppsetning þeirra, er frábær samantekt á uppsetningu námsins hérna; þau vilja ekki að námið snúist um að þú kunnir að þylja upp staðreyndir eða fylla út formúlur, markmiðið er að þú vitir hvað þú ert að tala um og getir miðlað námsefninu til annarra á hnitmiðaðan máta. Munnlegu prófin hérna eru yfirleitt tekin í hálftíma gluggum. Í sumum tilvikum byrjaru á að kynna lokaverkefnið þitt í 10 mínútur áður en þú svarar spurningum kennara varðandi hana, í öðrum tilvikum var búið að birta lista af spurningum (yfirleitt 5-12 spurningar) og þú dregur svo eina af handahófi sem þú átt svo að svara í formi kynningar í 5 til 10 mínutur og í öðrum tilvikum er prófið blanda af þessum 2 aðferðum. Formúlan er þó yfirleitt sú sama; 10-15 mínútur af kynningu á verkefni og/eða spurningu, 5 mínutur sem kennarar spyrja þig um efni tengdu náminu til að sjá hvar þú stendur, svo er þér vísað út úr stofunni, kennararnir ræða í 3-5 mínutur og svo færðu einkunn. Búið. Á hálftíma ertu búinn að þreyta prófið, fá endurgjöf og einkunn, og þá er áfanganum lokið hjá þér. Þetta er ekki bara miklu fljótlegra og hentugra fyrirkomulag (talsvert betra að fá einkunn strax frekar en að bíða í 3-6 vikur eftir yfirferð) heldur er þetta líka miklu sniðugra þegar kemur að lærdómi nemenda fyrir próf. Þegar þú ferð í skriflegt próf geturu leyft þér ‘sleppa’ efni síðustu 2 vikna ef þú varst eftir á eða skilur það illa, ef þú neglir hitt ættiru að geta náð 75-85% af efninu réttu. Ef þú ert að taka munnlegt próf þar sem þú dregur spurningu af handahófi sem getur verið um efni hvaðan sem er úr áfanganum, þá geturu ekki ‘sleppt’ neinu án þess að spila rússneska rúllettu með alla önnina þína og það þvingar þig til að læra allt. Þú þarft ekki bara að vita, þú þarft að geta tjáð efnið og svarað spurningum um það án undirbúnings. Það hljómar kannski verra og erfiðara fyrir einhverjum en þetta skilur samt eftir sig svo miklu meiri vitneskju heldur en ‘gömlu’ aðferðirnar, allavega að mínu mati. Einkunagjöfin er svo líka aðeins frábrugðin íslensku aðferðinni en hún fylgir 7 skrefa skala. Það er ekki 1-10 eftir hlutfalli réttra svaraðra spurninga, heldur færðu mat kennara og prófdómara eftir prófið. Í prófinu eru kennarar áfangs og einn óháður prófdómari sem kemur í veg fyrir mögulega sérmeðferð. Hæsta einkunn er 12 eða A, sem þýðir að nemandi sýndi sterka færni á öllum sviðum námsefnis með engum eða ör, örfáum veikleikum. Næsta er 10 eða B sem þýðir að nemandi sýndi mjög sterka færni með aðeins örfáum veikleikum hér og þar. Svo fer þetta koll af kolli niður 7, 4, 02, 00 og -3. 00 er semsagt falleinkunn og -3 er ef nemandi mætir ekki til prófs eða gjörsamlega skeit á sig í prófinu. Þetta hljómar kannski svipað grunnskólaeinkunum á Ísland en hvernig mat kennara á sér stað sem og efni sem er tekið til mats er töluvert öðruvísi. Einungis frammistaða í lokaprófi, og lokaverkefni ef það er partur af matinu, telur til einkunna. Frammistaða yfir önnina, þátttaka í tímum, verkefnum skilað (öðrum en lokaverkefnum) sem og álit kennara eru örsjaldan tekin með í reikninginn og til þess er óháður prófdómari til staðar en hans hlutverk er einmitt að tryggja að nemendur fá einungis einkunina sem endurspeglar frammistöðu þeirra í prófinu.


Upplifun sem námsmaður

Það er að sjálfsögðu alltaf skrýtið að setjast aftur á skólabekk en ég held samt að mér líki námið betur hérna í Danmörku en á Íslandi. Kannski er það bara mín eigin tilfinning eða afleiðing þess að hafa verið frekar slakur námsmaður framan af í grunnnáminu en mér líður eins og námið hérna sé mikið úthugsaðara að mörgu leyti. Í grunnnáminu var alltaf hamagangur í verkefnaskilum, rosalega tight og mikil dagskrá og ef maður spurði kennara afhverju eitthvað væri svona var svarið yfirleitt ‘af því bara’ eða ‘þetta er best’. Prófin voru sett til að fylla einhvern kvóta eða tikka í einhver box, stöðuprófum oft ekki breytt milli ára og ofan á það voru svörin stundum auðfundin á netinu sem eiginlega skemmir tilgang prófanna. Það voru allir rosalegir duglegir og samviskusamir, bæði kennarar og nemendur en ég held samt að enginn vissi almennilega afhverju. Kennarar voru að kenna því þeir voru kennarar og áttu því að kenna, eða þá til að halda rannsóknarstöðu sinni. Nemendur að læra fram á kvöld og eyða heilu helgunum í verkefnavinnu afþví að þau áttu að fara í háskóla því þannig virkaði kerfið; grunnnám, út í framhaldsnám svo þú komir heim með flott merki á CV-inu svo þú værir tekin meira alvarlegra í atvinnulífinu. Ég ætla ekki lengra í þessa ‘Brick in the Wall’ sálma mína þó ég gæti skrifað mikið meira um það, en það sem ég er að reyna að koma að er að ég man aldrei eftir því að hafa upplifað einhvern tilgang með ösinni heima; fólk var bara á fullum hraða af því bara. Þetta sást best á tvískiptingunni eftir menntaskóla; þú ætlaðir annaðhvort að ‘lifa lífinu’ og ferðast, eða bara ‘beint’ í háskólann. Það voru alveg aðskilin concept.

Það fyrsta sem sló mig þegar ég hóf námið mitt var hversu afslappaðir og rólegir samnemendur mínir voru. Ég er viss um að Landsvirkjun gæti virkjað spennuna sem er til staðar í fyrsta Stærðfræðigreiningu 1 fyrirlestrinum í HR á Íslandi, en fyrsti fyrirlesturinn hérna úti var spegilandstæða. Það er allt tekið á svo rólegum hraða, það er erfitt að útskýra eða lýsa því án þess að óvart búa til hugmyndina að þetta sé bara auðvelt nám. Ég vil hafa það alveg á hreinu að þetta er það þyngsta sem ég hef tekist á við, en það er ekki álagðið sem veldur því. Dönsku samnemendur mínir höfðu bara þann ótrúlega hæfileika að byrja bara á verkefni í rólegheitum og svo var það bara allt í einu búið þegar átti að skila því. Ég var eina fíflið sem tók eitthvað power-session og kláraði skilaverkefni 4 vikum fyrir skil því ég var vanur íslenska kerfinu þar sem að maður lendir eftir á þó að maður skili á tilsettum tíma; það birtust bara óvart 3 verkefni í viðbót sem þú átt eftir. Það hefur því tekið smá tíma að venjast því að vinna hægt og rólega í stað þess að reyna að skófla öllu frá í einu.

Það sem ég upplifði næst var einmitt umræddur tilgangur, bæði hjá nemendum og kennurum. Allir kennarar sem hafa kennt mér hingað til hafa mætt í fyrirlestrana því þau eru að reyna að miðla þekkingu sinni eins vel til nemenda og þau geta. Þau ekki bara hlusta, þau vilja fá endurgjöf á skipulag námsins, efni áfangans, uppsetningu fyrirlestra, o.s.f.r.v.. Ef að verkefnin eru of mörg, þá er þeim fækkað um eitt. Ef það vantar meiri tíma fyrir verkefni þá er einum fyrirlestri sleppt. Ef fyrirlestrar eru of fræðilegir, þá er bætt við hagnýtum dæmum. Þetta byggir þó á gagnkvæmi trausti milil nemenda og kennara og þar kemur inn tilgangur námsins hjá nemendum hérna. Ég hef ekki ennþá náð að koma því í orð en besta lýsingin mín á Dönskum nemendum er að háskóli er ekki hraðall út í atvinnulífið, eða leið til að boost-a ferilskránna, þetta er meira eins og ofvaxin félagsmiðstöð. Þau fá greitt fyrir að vera í skóla, það er samfélagslega samþykkt að hefja fjölskyldulíf seinna á ævinni, hvað í andskotanum liggur á? Og það finnst, að mínu mati, bersýnilega á stemningunni í námsumhverfinu. Það eru allir svo rólegir. Það er föstudagsbar hjá hverju einasta nemendafélagi og þau keppast um að hafa þann besta. Það eru haldnar fyrirtækjakynningar og samkomur sem eru á við Framadaga í HR, nema fyrir hverja braut. Ég veit ekki hversu margar fyrirtækjakynningar ég fékk sem voru að kynna nemendastörf fyrir mastersnema og enduðu á orðunum ‘þú vinnur bara eins mikið eða lítið og þú treystir þér til’. Þeir föttuðu svo líka eitt sem ég skil ekki hvernig Íslendingar hafa ekki tekið upp; skiptinám. Nú veit ég að það er ekki nýtt af nálinni en ég man ekki eftir að það hafi verið eins útbreitt heima og það er hérna. Nánast hver einasti Dani sem ég hef unnið verkefni með hingað til hefur farið, eða ætlar að fara, í allavega eina önn í skiptinám. Þeir fara svo ekki bara til Þýskalands eða Bandaríkjanna, þeir taka þetta alla leið. Önn í Ástralíu, Mílan, Nýja Sjálandi, Argentínu, Kína, Grikklandi. Einn hópfélagi minn tók önn í Kanada í grunnnáminu sínu, ætlaði að taka önn í herþjálfun, hætti við og skráði sig í master og er svo að fara næsta haust í eina önn til Róm. Af einhverjum ástæðum er þetta alltaf afmörkuð svið, að ferðast og læra, þegar rætt er um framhaldsnám á Íslandi. Hérna er þessu blandað saman, ferðast og læra á sama tíma. Svo er þetta líka eðlilegasti hlutur í heimi fyrir þeim, það er nánast bara gert væntingar til nemenda að þeir eigi að leggja land undir fót og upplifa ævintýri samhliða náminu. Mér finnst að þetta ætti að vera vinsælla á Íslandi miðað við ferðalöngun okkar Íslendinga. Í rauninni er gráðan að vissu leyti bara eitthvað skírteini sem þau fá í loks náms, aðalatriðið er að eignast vini, hafa gaman, ferðast og kannski læra eitthvað smá, eða það er a.m.k. tilfinningin sem maður fær þegar maður umgengst Dönsku nemendurnar.


Ég veit að það alltaf stereótýpan um Dani að vera ‘ligeglad’ og ég mun æla ef ég heyri annan auglýsingafulltrúa frá háskólanum tala um ‘hygge’ en það er samt staðreyndin að þeir lifa eftir þessum hugtökum, hvort sem það er viljandi eða ekki. Það getur svo vel verið að umhverfið sé allt annað í t.d. Kaupmannahöfn þar sem takturinn er hraðari og meira um að vera, ég bara þekki það ekki nógu vel. En af því sem ég hef kynnst hér úti þá er ótrúlega gott að læra hérna, námið er oftast áhugavert, samnemendur mínir hafa verið mjög skemmtilegir (það gleymist oft hvað Daninn er töluvert félagslyndari en við Íslendingar) og upplifunin hefur verið ótrúlega lærdómsrík að öllu leyti. Upplifunin heima var sú að maður var alltaf á leiðinni að gera eitthvað annað, sama hvað maður var að gera akkúrat núna. Það er því kaldhæðnislegt að Danir séu næstum því Íslenskari en við, því þeirra hugsun er “Ég er að gera þetta akkúrat núna. Allt hitt? Það reddast…”

image-fyrsta-arid-i-nami
image-0image-1image-2image-3image-4