Dólgurinn og Daman
Dólgurinn - 9. August 2023
Til þess að ferð geti raunverulega orðið ævintýri þarf einhver að skrifa niður hvað átti sér stað í ferðinni. Síðan þarf líka að hafa gaman af ferðinni og helst þarf hún að vera eftirminnileg. Við vorum aldrei í vafa um að þessi ferð okkar yrði skemmtileg né hvort að hún yrði eftirminnileg. Það sem við vorum ekki alveg viss um hinsvegar var hvernig ferðin yrði skjalfest.
Við teljum okkur ótrúlega heppin að búa við það "vandamál", ef vandamál má kalla, að það var mikill áhugi fyrir þessari ferð okkar út, þannig að kröfur og beiðnir um myndir, sögur, fréttir og alls kyns uppfærslur bárust úr öllum áttum. Við erum svo þjónustulunduð að við fengum nokkrum sinnum höfuðverk við að reyna að finna leið til að halda öllum upplýstum þar sem það er ekki hlaupið að því að miðla fréttum til fjölmargra fjölskyldna og vina um allar trissur, á öllum aldurshópum og um allt land. Groupchat á samfélagsmiðli var út úr myndinni og ekki höfðum við tíma til að upplýsa hvern og einn aðila sem hafði áhuga þó svo að við hefðum gjarnan viljað gera það svo að sú ákvörðun var loks tekin að búa hreinlega til blogg síðu, old school aðferðarfræði sem samt skilar samt sínu.
Mikilvægasti þáttur hvers ævintýris er að sjálfsögðu nafnið. Að finna nafn á þessa blessuðu síðu var flóknara en að setja saman sjónvarpsskenk frá IKEA og ef þið spyrjið hana Maríu þá fáiði staðfest að hún ætti auðveldara með að kenna umferðarkeilu að taka hjólhestaspyrnu en að setja saman það húsgagn aftur. "Ævintýri í Árósum", "Fallegir Ferðalangar", "Danmerkurdagbók", "DM í DK", allar tillögur sem okkur datt í hug hljómuðu eins og lélegar framhaldsbækur eftir Danielle Steel eða sjálfsævisaga Jóns Sigurðssonar. Loks lentum við á "Dólgur og Dama í Danaveldi". Fegurðin við það nafn er að við getum bæði 2 verið dólgurinn og daman en það fer algjörlega eftir dagsformi. Eini fastinn er sá að á hverjum gefnum tímapunkti er annað hvort okkar alltaf dólgurinn, og hitt er daman.
Á þessari síðu munum við deila með ykkur vegferðinni okkar í Árósum með pistlum og myndum. Hægt er að lesa hvern pistil með að smella á 'Lesa færslu' hlekkinn sem er fyrir neðan hverja samantekt á forsíðunni, en einnig er hægt að smella á myndina sem er við hliðina á samantektinni ef þú vilt bara sjá myndirnar og spara þér lesturinn á bullinu í okkur. Ef smellt er á titilinn efst á síðunni er alltaf hægt að fara aftur á forsíðuna. Ef tími gefst þá mun ég vonandi ná að bæta við sér síðu sem eru bara myndir en þangað til verður bara hægt að skoða myndir í hverri færslu fyrir sig. Þar til næst.