Des. 24-3.jan. 25
Daman - 16. January 2025
Jæjaaa núna er janúar hálfnaður þannig það er kannski eins gott að ég komi mér loksins í að skrifa um viðburðaríka desember og fyrstu 3 daga janúarmánaðar.
Síðasta færsla endaði á að ég skrifaði um að við hefðum verið að baka fáranlega margar kökur sem ég bjóst við að myndu endast nánast fram að jólum. Þær gerðu það ekki. Held við höfum verið minna en viku liggur við að klára þær en það er a.m.k. merki um að þær hafi verið góðar. Annað sem ég gerði í byrjun des var að klára allar jólagjafir en það var mikilvægt að klára allavega þær sem þurfti að panta svo þær væru pottþétt komnar áður en við færum til Íslands.
Við höfðum ekki reiknað með neinni heimsókn fyrr en í febrúar en það breyttist óvænt og var mjög gaman. Hafdís og Bosko komu til Danmerkur 4.-7. des en voru í Árósum 4.-6. des. Það voru mjög skemmtilegir dagar en leiðinlegast var að bæði var Daníel á kafi í verkefnaskilum og hálflasinn. En hann náði að borða með okkur bæði kvöldin og svona þannig við náðum alveg einhverri samveru öll saman. Þau voru með bílaleigubíl þannig ég fékk að fara með á rúntinn og nýtti ferðina ofc til að fara í Ikea og Bilka. Hefði verðið næs að hafa þau lengur í heimsókn og betra veður en það verður bara að bíða betri tíma.
Helgina eftir eða 13.-15.des vorum við búin að lofa okkur í hundapössun í Kolding hjá frændfólki Daníels. Þau eiga fáranlega sætan labrador sem heitir Bangsi og er svo stilltur þannig það var ekkert mál að passa hann. Þannig helgin einkenndist af göngutúrum og að gefa honum nammi. Frændfólk hans kom reyndar heim á laugardagskvöldinu en við nenntum ekki að taka lestina svona seint til baka þannig við ákváðum að vera fram að sunnudagshádegi. Laugardagskvöldið var því mjög kósý með þeim en Daníel og frændi hans fóru niður í bæ í Kolding sem var eitthvað annað dauður en það voru færri á ferli á laugardagskvöldi en eru hér í Árósum um miðja þriðjudagsnótt í febrúar. En samt sem áður var mjög gaman.
Dagarnir eftir að við komum frá Kolding fóru í að Daníel kláraði síðustu verkefnin sín og svo auðvitað að pakka, finna til allar gjafirnar og græja allt fyrir Ísland.
20.des fórum við til Íslands. Við ákváðum að taka rútuna upp á völl vel snemma þar sem að við vorum hrædd um að rútan myndi bara fyllast af Íslendingum haha og við vildum nýta tímann á lounginu þar sem við vorum að fljúga á Saga class. Við vorum því mætt upp á völl alveg 4 tímum fyrir flug en það var bara kósý að sitja nánast alein á lounginu og borða mjög fínan mat og auðvitað fríir drykkir. Flugið var mjög næs nema í matinn var virkilega ekki gott kjöt en sem betur fer borðuðum við vel fyrir flugið. Ég sofnaði svo þar sem að flugið fór af stað um miðnætti en Daníel sá um að nýta fríu drykkina fyrir okkur.
21.des var langur dagur þannig við ákváðum að sofa vel út. Um hádegið fengum við íslenskan bakarísmat en það er eitthvað sem ég er alltaf jafn spennt fyrir því að fá. Daníel eyddi svo deginum með pabba sínum og Kjartani á meðan ég fór heim til mömmu að chilla. Um kvöldið var svo laufabrauðsgerð og matur heima hjá ömmu Ingu með pabba fjöllu en það er alltaf jafn næs þrátt fyrir að Daníel hafi engan áhuga á að skera út laufabrauð en hann hjálpar þá alltaf bara til í staðinn og er andlegur stuðningur. Kjartan hafði skutlað honum út á nes og var hann dreginn af fjölskyldunni minni inn þannig hann endaði í laufabrauðsgerðinni með okkur.
Seinna um kvöldið var ég að fara á Julevenner Emmsjé Gauta með Hönnu Rakel og Siggu Ruth þannig þær komu heim til ömmu í pre-drykki (ömmur okkar eru systur). Þar náðum við smá catch uppi enda margir mánuðir síðan við hittumst síðast. Tónleikarnir byrjuðu klukkan 23 og voru fáranlega skemmtilegir og okkur leið eins og þeir voru svona korter. Vissulega getur prósentan í blóðinu spilað inn í en þeir voru líka bara það flottir að maður vildi ekki að þeir kláruðust. Í stað þess að fara niður í bæ eða bara allar heim til okkar fórum við allar saman aftur heim til ömmu þar sem var enn fjör og enduðum þar til 5 um nóttina. Eins og ég segi langur dagur en svo virkilega skemmtilegur.
22.des fórum við að heimsækja uppáhalds litla Daníel Loga okkar og auðvitað Stebba og Dísu (sem eru trúlofuð!!). Litli mússinn er alltaf búinn að stækka svo á milli þess að við hittum hann og svo gaman að sjá hvað hann er orðinn mikill karakter. Verst er hvað við náðum í raun að vera stutt hjá þeim og við hefðum viljað ná að fara aftur til þeirra og eyða meiri tíma með þeim en einhvern veginn hverfur tíminn alltaf. Þegar við komum aftur í bæinn náðum við í Maríu og Daníel skutlaði okkur á Fjörukrána þar sem við fengum okkur pizzur, mjööög góðar!! En líka frekar dýrar haha. Síðan röltum við yfir í Bæjarbíó til að fara á Jóla Hólm. Hann var fyndinn en ég held hann sé eiginlega bara fyndinn með eftirhermur og planað uppistand eins og hann var með þarna því þegar ég sá hann í Bannað að hlæja fannst mér hann ekki fyndinn. En þetta var allavega mjög næs og gaman!
Á Þorláksmessu byrjuðum við Sara að fara í sund fyrir vinnu hjá henni en sund er eitthvað sem ég sakna alltaf. Síðan nýtti ég dekur Óskaskrín sem ég átti í að fara í nudd. Það var fínt jafnvægi milli þess að vera slökunar og góður þrýstingur. Um kvöldið borðaði Daníel heima hjá pabba sínum en ég fór í mat hjá mömmu og Sigga og það var að sjálfsögðu Þorláksmessupizza.
Aðfangadagur var líka langur dagur eins og hann er nú reyndar alltaf hjá mér. Við byrjuðum á að fara í graut hjá ömmu hans og afa mömmu hans megin en því miður vann hvorugt okkar möndluna. Ég borðaði og opnaði pakka heima hjá mömmu og Sigga en Daníel heima hjá pabba sínum. Maturinn var eitthvað annað góður og eiginlega finnst mér alltaf leiðinlegast að verða södd og geta ekki borðað meira. Í eftirrétt var mamma búin að gera ís og í honum leyndist mandla en það var ekki fyrr en í bókstaflega síðustu sneiðinni af ísnum sem Lárus fann möndluna. Eftir að hafa opnað pakkana fór ég upp í Blöndubakka að heilsa upp á liðið þar og að sækja Daníel. Þá fórum við aftur út á nes svo hann gæti heilsað upp á liðið þar og pikkað upp Söru. Við fórum síðan til pabba og Guðrúnar að opna pakkana sem eru alltaf þar og enduðum svo á að taka taxa aftur upp í Breiðholt um nóttina.
Jóladagur er alltaf jólaboða dagur. Fyrst fórum við til ömmu hans og afa pabba hans meginn í jólaboð þar sem var m.a. bingó. Eftir það fórum við í jólaboðið heima hjá ömmu Ingu með pabba fjöllu sem er alltaf á jóladagskvöld. En í báðum boðunum fengum við hangikjöt og meðlæti sem er svosem bara fínt þar sem maður fær þetta bara 1x á ári.
26.des var mjög rólegur. Við fórum í kaffiboð til mömmu og Sigga sem var fyrir allra nánustu. Mamma græjar samt alltaf mat eins og þetta sé 30 manna veisla en ég kvarta svo sannarlega ekki yfir því. Um kvöldið varð ég eftir til þess að hjálpa Söru að baka köku fyrir afmælið hennar sem hún hélt daginn eftir.
27. des fór ég í rækt og sund með Írenu. Ég ætlaði að taka jafn marga spretti og hún á hlaupabrettinu en líkaminn sagði nei takk eftir allt átið og drykkjuna síðustu daga. Ég og Daníel buðum síðan Söru og Kjartani í bröns á Snaps sem fyrirfram afmælisbröns en þau eiga bæði afmæli 28.des. Um kvöldið hitti ég og borðaði með kvennóstelpunum en það er alltaf næs að ná hittingi upp á að ná að catch up með allt sem er búið að gerast síðustu mánuði.
28.des er eins og áður kom fram afmælisdagur systkina okkar. Við Dmg fengum bakarísmat í morgunmat uppi í Breiðholti. Síðan fóru strákarnir á Botn til að fagna afmælisdegi Kjartans en ég fór út að borða með Söru, mömmu og Sigga. Við Sara enduðum svo afmælisdaginn hennar á að horfa á “Að temja drekann sinn” myndina svona eins og maður gerir.
29.des áttum við 6 ára sambandsafmæli!! Við ákváðum að fara á uppáhalds staðinn okkar, Botn, þannig Daníel kom í bæinn með feðgunum og pikkaði mig upp og við rúlluðum austur. Við fórum í pottinn í svo miklum kulda að efsta lagið í vatnsglösunum okkar fraus og hvítvínið varð að semi slushi. En það var bara jafn næs og er alltaf.
30.des komum við heim frá Botni og fórum beint í Kringluna að nýta gjafabréf sem við fengum í jólagjöf. Síðan fengum við Just wingin it en það er skylda þegar maður er á Íslandi.
Við áttum mjög erfitt með að ákveða hvernig við ætluðum að hafa gamlárskvöld þetta árið. En við enduðum á að borða hjá ömmu hans og afa pabba hans meginn en við vorum svo komin upp í Blöndbakka bara 2 fyrir miðnætti sem var mjög kósý. Eftir miðnætti ætlaði eitthvað af vinum okkar að kíkja en það endaði á að vera mjög rólegt þar sem vinur Daníels kom og stoppaði í 2 tíma og svo María en hún var alveg til 5 um nóttina.
1.jan er náttúrulega þynnkudagur þannig það var ekkert planað þann dag. Hins vegar fengum við loksins Subway en það er líka skylda á Íslandi. Svo kíkti Elísabet um kvöldið.
2.jan fór í það að stússast á meðan Daníel var að vinna. Ég fór að kaupa það sem okkur vantaði/langaði úr búðum á Íslandi. Svo fór ég líka í geymsluna okkar sem er með allt sem við skildum eftir og ég náði í ýmislegt sem okkur langaði að taka út. Svo nýttum við að sjálfsögðu daginn í að kveðja alla. Og ofc að pakka, en það var alveg bras en tókst.
3.jan var heimferðadagur. Við áttum flug um 16 sem er mjög næs tími. Við náðum þá að vakna, borða og klára að pakka í rólegheitum. Loungið var svo næs og flugið mjög fínt en við fengum einhverskonar böku eða eitthvað sem var virkilega góð, a.m.k. betri en kjötið í fyrra fluginu. Þegar við lentum í Billund fengum við 2 töskur mjög fljótt en sú þriðja var lengur á leiðinni, það lengi að við misstum af rútunni. Mest pirrandi samt að það munaði minna en 5 mín að við hefðum náð henni. En við þekktum alveg marga Íslendinga sem voru í sömu stöðu svo við chilluðum bara með þeim á vellinum á meðan við biðum eftir næstu rútu.
Vá sorrý hvað þetta var langt. Veit svosem ekki hvort einhver hafi lesið þetta allt. Ef svo er til hamingju. Veit að næsti póstur verður engan veginn svona langur því það er voða lítið af frétta af janúar annað en að Daníel er á fullu að læra fyrir lokaprófin þannig við vitum vonandi hvernig honum gekk þegar ég skrifa næst. Annars er ég bara alltaf í dönskuskólanum, í blakinu og að taka vaktir á Skor. Reyndar byrja ég með 2 fasta fös í mánuði í lok jan sem er næs.
Takk og bless